top of page
Search

Börn og ópíóðar

Ragnheiður Björg Guðmundsdóttir, Sæunn Kjartansdóttir og Sigrún Júlíusdóttir

Þrír sér­fræð­ing­ar segja að það sé ekki gef­ið að þeir sem glími við fíkn eigi erf­iða reynslu úr barnæsku. Börn með áfalla­sögu eða reynslu af van­rækslu eða of­beldi eru hins veg­ar í mun meiri áhættu en önn­ur börn gagn­vart fíkn.
Tilefni þessarar greinar er ópíóðafaraldurinn sem nú blasir við og sú yfirlýsta ætlan heilbrigðisráðherra að skera upp herör og bregðast við honum með þjóðarátaki.

Ráðherra talar um að styrkja viðbragðsmeðferð, skaðaminnkun, afeitrun og viðhaldsmeðferð. Þó að góður ásetningur liggi hér að baki lýsir hugsunin fyrst og fremst vanþekkingu, trú á plástrun og óraunhæfum væntingum um árangur slíks átaks. Markmið þjóðarátaks þarf að vera að koma í veg fyrir að börn og ungmenni ánetjist lyfjum eða öðrum fíkniefnum og slíkt er hvorki áhlaupaverk eða átaksverkefni. Í stað þess að berja í brestina með skyndiinngripum og bráðabirgðalausnum þarf að styrkja grunninn með því að skapa börnum uppeldislegar undirstöður til framtíðar. Til þess þarf að greina vanda fjölskyldna með ung börn, alveg frá meðgöngu, og fylgja þeim markvisst eftir yfir lengri tíma. Þá þarf að uppræta orsakir uppeldisskaða, rjúfa vítahring fátæktargildru og skaðlegs menningar – og siðferðislegs fjölskylduarfs (e.family transmission process; s. det sociala arvet). Í dag höfum við trausta vitneskju og þróaðar aðferðir sem eru til þess fallnar að snúa við þeirri óheilla þróun sem ópíóðafaraldurinn ber í sér. Ópíóðafaraldur meðal barna og unglinga er samfélagslegt viðbragðsfyrirbæri sem líkja má við faraldur engispretta sem stökkt hefur verið á flótta vegna lífsógnandi umhverfisaðstæðna.


Faraldurinn sem nú ógnar lífi ungs fólks snýst ekki um óskiljanlegan sjúkdóm heldur er hann viðbragð við vanmætti frammi fyrir vanda og vanlíðan. Ein ástæða þess að fólk ánetjast ópíóðaskyldum lyfjum er að þau veita tímabundna slökun, ánægju- og sælutilfinningu og slá um leið á tilfinningar sem valda kvíða, streitu og þunglyndi (NIDA, 2020). Geðlæknirinn Gabor Maté segir: „Spyrjum ekki hvers vegna manneskjan glímir við fíkn, spyrjum frekar af hverju hún finnur til“. Hann lítur svo á að neyslan sé viðleitni manneskjunnar til að leysa vanda sinn og því sé fíkn viðbragð við bágum aðstæðum, sársauka og vanmætti (Maté, 2018). Við síendurtekna neyslu myndar heilinn þol fyrir efninu og þarf því stöðugt meira magn til að framkalla áhrif vellíðunar, deyfa áhrifin af óbærilegu lífi og verjast vanlíðan fráhvarfa. Fljótlega snýst neyslan fyrst og fremst um að halda fráhvörfum í skefjum. Þessi bráðabirgða neyðarlausn heldur þjáningunni tímabundið í skefjum en upprunalegi vandinn er áfram óleystur.


Vandinn í tölum

Frá árunum 2011 – 2021 fjölgaði tilkynningum til barnaverndarnefnda úr 8,661 í 13,264 (BOFS, e.d.). Tilkynningum vegna vanrækslu barna fjölgaði um ríflega helming úr 2,738 í 5,614. Þar af jukust tilkynningar vegna vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit með barni og vegna tilfinningalegrar vanrækslu um rúman helming. Tilkynningar vegna heimilisofbeldis og neyslu foreldra nær þrefölduðust á tímabilinu. Þá fjölgaði tilkynningum vegna kynferðisofbeldis úr 461 í 720 talsins (BOFS, e.d.). Þessu til viðbótar varð ríflega helmings aukning frá árinu 2014 meðal einstaklinga sem sækja sér gagnreynda lyfjameðferð við ópíóðafíkn á göngudeild á Vogi.


Þó að aukning tilkynninga til barnaverndar sé uggvænleg má ætla að þær endurspegli vanda mun fleiri barna sem ekki er sinnt sem skyldi.


En hvernig tengist vanræksla eða áföll í barnæsku notkun ópíóða eða annarra fíkniefna á fullorðinsaldri? Fyrstu árin er barnsheilinn og sjálfsmyndin í mótun en hvort tveggja er undir sterkum áhrifum nærumhverfisins. Vanrækt barn á ekki örugga höfn að leita í þegar því líður illa og fær því hvorki speglun á tilfinningar sínar né hjálp við að vinna úr þeim. Hvort tveggja er forsenda sjálfsþekkingar og þrautseigju frammi fyrir erfiðleikum. Öryggisleysið ræsir streituviðbrögð barnsins sem hafa áhrif á heilaþroskann og valda því að það er stöðugt á varðbergi (van der Kolk, 2023). Hrætt og óöruggt barn getur hvorki gleymt sér í leik eða námi og þrífst þess vegna ekki vel í skóla. Það er hvorki læst á tilfinningar sínar né þjálfað í að takast á við þær. Við þurfum ekki að vera hissa að á unglingsaldri leiti það lausna í hugbreytandi efnum.



Fjölskylduvæn samfélagsgerð

Á síðustu árum hafa komið fram marktækar rannsóknir sem staðfesta áhrif umönnunar í frumbernsku, uppeldismótunar, áfalla og vanrækslu á þroska barna og heilsufar fullorðinna. Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á kynslóðartilfærslu erfiðrar upplifunar og óunna áfalla í frumbernsku (Hautamäki, 2010).

Heilbrigð tengslamyndun, tilfinningalegt öryggi, traust félagsleg samskipti og klakklaus skólaganga á uppvaxtarárum eru undirstöður heilbrigðs lífs, jafnvægis og vellíðunar. Um leið eru þessi atriði grundvöllur lífsgæða og hamingju í einkalífi og starfi á komandi árum. Hér skiptir miklu hvernig umgjörð stjórnvöld búa ungu fólki til fjölskyldumyndunar í húsnæðismálum, til undirbúnings farsællar stöðu á vinnumarkaði og til að sinna uppeldi og foreldrahlutverki með jafnvægi á milli einkalífs og starfs. Auk markvissar opinberrar fjölskyldustefnu sem tekur til þessara atriða leikur skólinn sem stofnun, og sú stefna sem þar hefur verið mótuð, veigamikið hlutverk. Þar kemur til markvisst kerfasamstarfi þvert á stofnanir, faggreinar og sérúrræði.


Stefnubreytingar er þörf

Sem liður í stefnumótun og kerfisbreytingum í þágu fjölskyldu og barna er nauðsynlegt að bregðast markvisst við þeim ógnum sem steðja að börnum og ungmennum í (ó)menningu okkar tíma. Auk þess sem að framan er talið vegur þungt almenn fræðsla um fjölskyldusamskipti og tengsl, bæði frumtengsl og fjölskyldumynstur, félagatengsl og umferðakort mannheima. Vakningar er þörf um hina rafrænu menningu ásamt vitund um áhrif markaðshyggju og neysluóstjórnar sem skapar börnum reiðuleysi og ráðvillu.


Byrgjum brunninn

Við þurfum ekki nýjar rannsóknir til að komast að því hvernig við getum byrgt brunninn. Yfrið nóg er til af gögnum sem sýna að með styrkingu forvarna verði minni þörf á að slökkva elda. Nú er brýnt að nýta niðurstöður rannsókna og þekkingu faglegrar reynslu til að stöðva niðurbrjótandi öfl og veðja þess í stað á uppbyggilega umgjörð styrkjandi innviða sem hefur forvarnaráhrif til lengri tíma. Rannsóknir hafa fyrir löngu sýnt að vænlegasta leiðin til að hafa heillavænleg áhrif á þroska og heilsu fólks er að taka mið af mótanleika barnsheilans og mikilvægi tengsla. Þess vegna er skynsamlegt og fjárhagslega hagkvæmt að draga úr streitu með því að stuðla að jafnvægi vinnu og einkalífs foreldra, gefa tengslum meira vægi og veita fjölskyldum með ung börn mun greiðari aðgang að foreldrastuðningi og fræðslu en nú er.


Það er ekki gefið að þeir sem glíma við fíkn eigi erfiða reynslu úr barnæsku. Hitt er víst að börn með áfallasögu eða reynslu af vanrækslu eða ofbeldi eru í mun meiri áhættu en önnur börn gagnvart fíkn, sjálfseyðileggjandi og andfélagslegri hegðun. Þjóðarátak gegn ópíóðafaraldri sem stendur undir nafni verður að leggja áherslu á forvarnir og þær þurfa að hefjast á meðgöngu.




Ragnheiður Björg Guðmundsdóttir er félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur, Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emerita og klínískur félagsráðgjafi og Sæunn Kjartansdóttir er sálgreinir.


Greinin birtist fyrst í Heimildin 2. júní 2023

64 views0 comments

Comentarios


bottom of page