top of page
Search

Styrkur til rannsókna í félagsráðgjöf úr Vísindum og velferð: Styrktarsjóði Sigrúnar og Þorsteins

Ragnheiður Björg Guðmundsdóttir hlaut nýlega styrk til verkefna og rannsókna í félagsráðgjöf úr Vísindum og velferð: Styrktarsjóði Sigrúnar og Þorsteins.

Sjóðnum Vísindi og velferð er annars vegar ætlað að efla doktorsnám og sérfræðiþekkingu í félagsráðgjöf, með áherslu á málefni barna og fjölskyldna, og hins vegar vísindafræði, nánar tiltekið rannsóknir og nýjungar sem tengjast vísindasögu, vísindaheimspeki og vísindamiðlun. Að þessu sinni voru veittir styrkir til verkefna á fyrrnefndu sviðunum, en auglýst er árlega eftir umsóknum á hvoru meginsviði til skiptis.

Ragnheiður Björg Guðmundsdóttir leggur stund á doktorsnám í félagsráðgjöf við Félagsráðgjafardeild. Hún rannsakar tengslahegðun 150 barna af íslenskum uppruna með umönnunaraðilum þeirra. Rannsóknin byggist á grunni tengslakenninga, að tengsl við frumumönnunaraðila fylgi barni frá vöggu til grafar. Áhersla er lögð á að skoða tengslahegðun íslenskra barna með frumumönnunaraðilum. Notast er við tengslamatstæki sem nefnist Toddler Care Index en gagnaöflun felst í 300 myndbandsupptökum af tengslahegðun sem send eru utan til greiningar hjá Family Relations Institute á Ítalíu. Rannsóknarniðurstöður munu veita dýrmæta þekkingu um hvernig tengslahegðun barna af íslenskum uppruna er háttað og hvernig menningararfleifð Íslendinga hefur mótað tengslahegðun íslenskra barna. Niðurstöðurnar munu einnig veita innsýn í hættulega tengslahegðun og birtingarmyndir hennar og geta leitt til breytinga á meðferð og stuðningi við börn og fjölskyldur barna sem búa við hættu.


Á myndinni eru stofnendur sjóðsins, Þorsteinn Vilhjálmsson fyrrverandi prófessor í eðlisfræði og vísindasögu og Sigrún Júlíusdóttir fyrrverandi prófessor í félagsráðgjöf ásamt styrkhöfum og fulltrúum þeirra; Ragnheiður Björg Guðmundsdóttir doktorsnemi í félagsráðgjöf, Davíð Alexander Östergaard meistaranemi í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf, Sirrý Sif Sigurlaugardóttir doktorsnemi í félagsráðgjöf, og Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ.

Um sjóðinn

Vísindi og velferð: Styrktarsjóður Sigrúnar og Þorsteins var stofnaður á vormánuðum árið 2021 og eru stofnendur sjóðsins hjónin Sigrún Júlíusdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson, sem bæði eru fyrrverandi prófessorar við Háskóla Íslands. Sigrún er fyrrverandi prófessor í félagsráðgjöf og hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar, rannsókna og fræða í félagsráðgjöf við háskólann og stofnandi Rannsóknaseturs í

barna- og fjölskylduvernd. Þorsteinn er fyrrverandi prófessor í eðlisfræði og vísindasögu, stofnandi og fyrsti ritstjóri Vísindavefsins og hefur verið brautryðjandi í vísindafræðum við skólann.


Sjóðurinn heyrir undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands og starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Í stjórn sjóðsins sitja Vilhjálmur Þorsteinsson, sonur Þorsteins og fulltrúi stofnenda sjóðsins sem jafnframt er formaður stjórnar, Sigurveig H. Sigurðardóttir prófessor, fulltrúi Félagsráðgjafardeildar, og Einar H. Guðmundsson, prófessor emeritus, fulltrúi Raunvísindadeildar og Sagnfræði- og heimspekideildar.Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands og þar með samfélagið allt.


Myndir. Kristinn Ingvarsson

26 views
bottom of page