top of page
Search

Velkomin á Opið hús í Lífsgæðasetrinu í St. Jó.


Opið hús fyrir fagfólk


5. september 2023 13:00 – 15:00 Suðurgata 41



Á opna húsinu bjóðum við fagfólk velkomið að koma og kynnast fjölþættri starfsemi Lífsgæðasetursins, hlýða á stutt erindi frá fagaðilum og samtökum sem hafa viðveru í húsinu, þiggja veitingar og eiga gott samtal.

Viðburðurinn stendur frá kl. 13:00 -15.00, vinsamlegast skráið áhuga hér.

Á dagskrá verða 10 erindi:

  • Alzheimersamtökin kynna starfsemi samtakanna. Samtökin vinna að hagsmunamálum fólks með heilabilunarsjúkdóma og aðstandenda þeirra með stuðningi, ráðgjöf og fræðslu. Auk þess reka samtökin þrjár sérhæfðar dagþjálfanir og Seigluna sem er þjónustumiðstöð fyrir fólk sem skammt er gengið með sinn sjúkdóm og aðstandendur þeirra.

  • Parkinsonsamtökin tala um mikilvægi endurhæfingar við parkinson og þá þjónustu sem er í boði í Takti fyrir fólk með parkinson og aðstandendur þeirra.

  • Sorgarmiðstöðin segir frá sinni starfsemi.

  • Guðrún hjá Heimastyrk mun kynna þá fjölbreyttu þjónustu sem er í boði. Fjallað verður um hvernig efla má heilsu og vellíðan barna, fullorðinna og eldri borgara, starfsfólks vinnustaða og íbúa samfélaga gegnum ólíka iðju og mikilvægi þess að allir fái tækifæri á að taka þátt á sínum forsendum. Kynnt verður sú þjálfun, ráðgjöf, fræðsla, námskeið og faghandleiðsla sem er Heimastyrkur býður upp á og þann árangur sem þjónustan hefur náð gegnum þverfaglegt samstarf innan mennta-, velferðar- og heilbrigðiskerfisins sem og vinnustaða.

  • Ragnheiður hjá Tengslamat og Íris Eiríksdóttir hjá Yogahúsinu munu kynna námskeið sem á sér enga hliðstæðu hér á landi. Námskeiðið er ætlað foreldrum ungbarna á aldrinum 0-6 mánaða og 6-12 mánaða. Námskeiðið ber yfirskriftina „Aukum gæði tengsla, frumtengsl fylgja börnum frá vöggu til grafar“. Á námskeiðinu munu foreldrar fá fræðslu og leiðsögn um mikilvægi góðra tengsla við barnið sitt. Kennslu í ungbarnanuddi, fræðslu um slökun og upplifun af flotslökun. Þá munu foreldrar fá fræðslu frá gesta fyrirlesurum um líðan og sjálfsmynd, svefnráðgjöf, næringarráðgjöf, brjóstagjöf og kynlífsráðgjöf.

  • Þorkatla hjá Hlöðuloftinu segir okkur frá sálfræðimeðferð með dýrum. Meðferð getur verið mjög krefjandi fyrir mörg börn sem getur hamlar árangri. Með því að nýta nærveru við hesta og hunda má draga úr álagi, ná meðferðarsambandi fyrr, auka virkni og skapa tækifæri fyrir öðruvísi nálgun á hefðbundnum aðferðum. Rannsóknir hafa sýnt að nærvera við dýrum getur dregið úr streitu hormónum og aukið hormón sem skapa vellíðan. Auk þess sem nærvera við dýrin getur skapað eftirvæntingu sem gerir börn og ungmenni oft móttækilegri fyrir meðferðar vinnunni. Hérlendis hafa dýr helst verið notuð hjá sjúkraþjálfurum.

  • Sigrún hjá Míró fræðir okkur um ADHD markþjálfun sem hefur síðustu tuttugu árin rutt sér til rúms sem styrkleikamiðuð nálgun við að takast á við þekktar hindranir tengdar ADHD. Aðferðin notast við mörg verkfæri hefðbundinnar markþjálfunar en er fléttað saman með faglegri þekkingu sem hefur þróast til að stiðja við einstakling með ADHD. Markmiðið er að einstaklingurinn skilji betur hvernig ADHD hefur áhrif á líf hans og hvernig hann getur þjálfað upp færni og aðferðir til að öðlast bætt lífsgæði í lífi og starfi.

  • Dagný hjá Móðurafl mun tala um hvernig starfsemin miðar að því að efla sjálstraust og trú kvenna á eigin getu í fæðingu og auka þannig líkurnar á jákvæðari og verkjaminni fæðingarupplifun án hræðslu og kvíða. Hvernig fæðingin getur einkennst af meiri ró og yfirvegun og skýrari huga til að taka ákvarðanir og meiri valdeflingu, því allt hefur þetta áhrif á betri fæðingarútkomu og betri andlega og líkamlega heilsu móður og barns.

  • Þorkatla hjá Hlöðuloftinu fræðir okkur um CPS – foreldraþjálfun. CPS (Collaborative and Proactive Solutions) er gagnreynd aðferð þar sem foreldrar fá þjálfun í að vinna með barninu sínu sem jafningjar að því að finna lausnir sem barnið treystir sér til að nota svo það ráði við þær kröfur sem settar eru á það. Með aðferðinni temja foreldrar sér samræðutækni í að finna lausnir með barninu fyrirfram en ekki í hita leiksins. Áherslan er sett á það sem er að orsaka vandann en ekki á hegðunina sem það leiðir af sér þegar barnið ræður ekki við kröfur. Lausnir eru fundnar í samvinnu með barninu með því að fá upplýsingar frá því um hvað því þykir krefjandi.

  • Ragnheiður hjá Tengslamat og Íris Eiríksdóttir hjá Yogahúsinu munu kynna námskeið sem er ætlað fólki af erlendum uppruna, sem býður eftir því að mál þeirra fái afgreiðlsu á Íslandi. Námskeiðið ber yfirskriftina „Aukum vellíðan barna og foreldra sem hafa búið við ótryggar aðstæður og gera enn“. Á námskeiðinu munu foreldrar fá fræðslu og leiðsögn um mikilvægi góðra tengsla við barnið/börnin sín. Lagt er upp með tengslaeflandi vinnu í gegnum fræðslu, leikgleði og slökun og nánd.

9 views0 comments
bottom of page